13. febrúar 2018
Framsetningu kröfugreiðslna í reikningsyfirlitum hefur nú verið breytt til fyrri vegar; þ.e.a.s. að þegar krafa er greidd með kostnaði, birtast nú tvær færslur í stað einnar. Önnur færslan inniheldur summu kostnaðarliða og hin summu höfuðstóls og seðilgjalds.
Þetta er sama fyrirkomulag og var í gildi til 20. nóvember 2017.
Eldri skilaboð nóvember 2017:
Við uppfærslu á innlána- og greiðslukerfum Reiknistofu bankanna og Landsbankans mun framsetning reikningsyfirlita breytast þann 20. nóvember. Breytingin hefur áhrif á hluta viðskiptavina bankans, m.a. þá sem notast við sjálfvirkar afstemmingar á reikningum í bókhaldskerfum.
Breytingin lýsir sér þannig að ef kostnaður hefur fallið á kröfuna, til dæmis af því að hún var greidd eftir eindaga, birtist aðeins ein úttektarfærsla á yfirliti bankareikninga, í stað tveggja áður (ein vegna kostnaðar, s.s. dráttarvaxta, og önnur vegna höfuðstóls og seðilgjalds). Þetta getur valdið því að hreyfingayfirlit stemmir ekki við útgreiðslubækur bókhaldskerfa.
Landsbankinn mun birta hugbúnaðaruppfærslu sem gerir fyrirtækjum auðveldara að gera ráð fyrir þessum breytingum í kerfum sínum. Þar til sú uppfærsla kemur munu viðskiptavinir sem verða fyrir áhrifum einungis geta séð sundurliðunina í netbankanum, bæði í Greiðsluleit og Greiddum bunkum. B2B fyrirspurnir á greiðslubunka breytast þó ekki, né heldur innlestur kröfugreiðslna.
Landsbankinn biðst innilegrar velvirðingar á óþægindum sem þessi breyting veldur. Nánari aðstoð og upplýsingar veitir Þjónustuver fyrirtækja í síma 410 5000 og í gegnum póst á netfangið fyrirtaeki@landsbankinn.is.
Viðskiptavinir sem greiða margar kröfur í einu og merkja við "Framkvæma sem eina úttektarfærslu" verða ekki fyrir áhrifum af þessum breytingum, þar sem kostnaðarliðir eru þegar innifaldir í slíkum úttektarfærslum.