Pappírslaus viðskipti

Á undanförnum misserum hefur Landsbankinn hætt að senda út greiðsluseðla, yfirlit og tilkynningar á pappírsformi til viðskiptavina þar sem því er við komið og bankanum ber ekki lagaleg skylda að senda tilkynningar heim.

Eitt af markmiðum í stefnu Landsbankans um samfélagslega ábyrgð er að draga verulega úr pappírsnotkun. Árið 2012 hætti Landsbankinn að senda út reikningsyfirlit á pappír til viðskiptavina sem eru með netbanka og á þessu ári verður dregið enn frekar úr almennum póstsendingum.

Netbanki og bein skuldfærsla

Pappírslaus viðskipti fela í sér öryggi, hagkvæmni og sparnað fyrir viðskiptavini. Í netbankanum eru greiðsluseðlar og yfirlit aðgengileg. Við hvetjum því þá viðskiptavini sem ekki eru með aðgang að netbankanum að sækja um aðgang. Í Netbankanum hefur þú góða yfirsýn yfir fjármálin þín og gefst kostur á að stunda öll almenn bankaviðskipti á netinu þegar þér hentar.

Til að stofna aðgang að Netbanka einstaklinga þurfa viðskiptavinir að mæta í næsta útibú Landsbankans og framvísa gildum persónuskilríkjum.

Bein skuldfærsla

Bein skuldfærsla er örugg leið til þess að greiða af lánum og kreditkortum. Þá er greiðsluseðill skuldfærður beint  af bankareikningnum þínum um hver mánaðamót og sparar með því bæði tíma og fyrirhöfn. Hægt er að sækja um beina skuldfærslu í næsta útibúi.

Óska eftir pappír

Viðskiptavinir geta sótt um að fá áfram sendan pappír heim, fyrir þær vörur sem verða pappírslausar, á eftirfarandi hátt: 


Reikningsyfirlit viðskiptavina

Frá og með 31. desember 2013 mun Landsbankinn hætta að senda heim til viðskiptavina reikningsyfirlit veltureikninga, sparireikninga og gjaldeyrisreikninga. Áramótayfirlit munu því ekki verða send heim nema til viðskiptavina sem óska sérstaklega eftir því. Í netbankanum er hægt að nálgast reikningsyfirlit undir Yfirlit > Reikningsyfirlit.

Greiðsluseðlar lána

Frá og með 1. júní 2013 verða greiðsluseðlar lána, bíla- og kaupleigusamninga sem eru í íslenskum krónum ekki lengur sendir heim í pósti til viðskiptavina nema þeir óski sérstaklega eftir því. Í Netbankanum er hægt að nálgast upplýsingar um lánin, undir Yfirlit > Rafræn skjöl og/eða Yfirlit > Lán, ásamt því að greiða af lánunum.

Kreditkort

Einstaklingar

Mánaðamótin janúar/febrúar 2013 voru greiðsluseðlar og yfirlit kreditkorta einstaklinga send út í síðasta skipti. Greiðsluseðlar og yfirlit kreditkorta einstaklinga eru einungis aðgengileg í netbankanum undir  Yfirlit > Rafræn skjöl og/eða Yfirlit > Kreditkortayfirlit nema viðskiptavinur óski sérstaklega eftir að fá áfram sendan pappír í pósti.

Fyrirtæki

Mánaðamótin apríl/maí 2013 verða greiðsluseðlar og yfirlit kreditkorta fyrirtækja send út í síðasta skipti. Greiðsluseðlar og yfirlit kreditkorta fyrirtækja verða einungis aðgengileg í fyrirtækjabankanum undir Yfirlit > Rafræn skjöl nema viðskiptavinur óski sérstaklega eftir að fá áfram sendan pappír í pósti.

Panta yfirlit/greiðsluseðil

Debetkort, veltu- og innlánsreikningar

Frá og með 1. apríl 2013 verður dregið úr heimsendum tilkynningum á pappír vegna veltureikninga, sparireikninga og debetkorta.

Bankinn mun hætta að senda út tilkynningar við nýstofnun og eyðileggingu veltu- og sparireikninga. Áfram verða þó sendar tilkynningar við nýstofnun orlofsreikninga og reikninga ófjárráða barna.Tilkynningar verða aðgengilegar í Netbanka viðskiptavina eins og áður, undir rafræn skjöl.

Bankinn mun hætta að prenta út tilkynningar vegna debetkorta sem eru tilbúin til afhendingar og mun þess í stað senda tilkynningar með SMS-i. Þeir korthafar sem eru ekki með skráð símanúmer hjá bankanum fá áfram sendar tilkynningar í pósti frá bankanum.

Ekki verður í boði að panta pappír fyrir ofangreint.